Íslenska sprotafyrirtækið Noona hefur tryggt sér 190 milljónir króna í fjármögnunarumferð leiddri af SaltPay. Noona appið þegar í notkun hjá 50.000 Íslendingum, en fjárfestingin nú verður nýtt til vöruþróunar og sölusóknar á erlendan markað.

Íslenska sprota- og tæknifyrirtækið Noona tilkynnti í dag að það hefði tryggt sér fjármögnun upp á 1,2 milljónir evra, eða um 190 milljónir íslenskra króna. Fjármögnunin er leidd af alþjóðlega fjártæknifyrirtækinu SaltPay sem hafði áður keypt færsluhirðinn Borgun í mars 2020.

Fjármagnið verður nýtt til að fjölga starfsfólki í vöruþróun, veita núverandi viðskiptavinum betri þjónustu og undirbúa innreið fyrirtækisins á nýja markaði erlendis, með áherslu á Evrópu í upphafi.

Fjárfestingin var í formi hlutafjáraukningar í fyrirtækinu Tímatal ehf., sem þróar og rekur bæði þjónustumarkaðstorgið „Noona“ og tímabókunarkerfið „Tímatal“, en félagið mun starfa undir vörumerkinu Noona erlendis.

Í dag nota rúmlega 350 fyrirtæki á Íslandi tímabókunarkerfið og um 50.000 Íslendingar hafa sótt Noona appið, sem notað er til að bóka þjónustu af ýmsu tagi eins og hárgreiðslu, snyrtingu, nudd og bílaviðgerðir.

Rúmlega 175.000 tímar hafa verið pantaðir í gegnum appið frá því það var fyrst sett á laggirnar vorið 2019. Snemma á seinasta ári gaf félagið út nýtt sölukerfi fyrir þjónustuveitendur sem viðbót við tímabókunarkerfið, en þannig kviknaði áhugi SaltPay á frekara samstarfi.

Saman geta félögin nú boðið þjónustuaðilum heildarþjónustu allt frá tímabókun til færsluhirðingar og er það lausnin sem Noona mun leggja áherslu á að bjóða í samvinnu við SaltPay, bæði heima og erlendis.

Hættu í háskóla til að setja kraft í reksturinn

Saga fyrirtækisins hófst árið 2014 þegar Kjartan Þórisson, stofnandi og framkvæmdastjóri vöruþróunar, byrjaði að þróa tímabókunarkerfið samhliða námi.

Reksturinn hófst svo fyrst af alvöru árið 2018 þegar Kjartan og Jón Hilmar Karlsson, framkvæmdastjóri, tóku ákvörðun um hætta í háskóla til að setja alla sína krafta í reksturinn.

Síðan hefur starfsemin aukist jafnt og þétt og nú eru sex starfsmenn hjá fyrirtækinu en næsta skref er að fjölga starfsfólki enn frekar til að setja aukinn kraft í þróunarstarf og markaðssetningu erlendis.

Vantar starfsfólk með tækniþekkingu

Kjartan Þórisson stofnandi og framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Noona segir þá ekki geta verið sáttari með fjárfesta.

„SaltPay er metnaðarfullt og orkumikið fyrirtæki sem rímar einstaklega vel við okkar kúltúr. Þeim fylgir alþjóðlegt tengslanet og öðruvísi hugarfar en það sem við höfum kynnst áður hér heima,“ segir Kjartan.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir okkur og opnar margar dyr sem við vissum ekki af áður. Það besta er að samstarfið nýtist öllum aðilum - við hjálpum SaltPay að ná fótfestu meðal þjónustugeirans, þau hjálpa okkur með dreifingu erlendis og notandinn fær mikið betri þjónustu.“

Ali Mazanderani , stjórnarformaður SaltPay, segir Noona vera áhugaverðan samstarfsaðila.

„Noona er ungt og spennandi fyrirtæki sem hefur komið fram með vöru sem mætir gríðarlega vel þörfum söluaðila í tæknivæddari heim. Við teljum að fyrirhugað samstarf fyrirtækjanna muni gera SaltPay kleift að færa viðskiptavinum sínum enn betri vörur og þjónustu.“

Bæði fyrirtækin hafa vaxið að undanförnu og stefna á að ráða fleira fólk með tækniþekkingu á næstunni. Jón Hilmar Karlsson hvetur fólk til þess að sækja um þau lausu störf sem Noona auglýsir nú eftir.

„Það er stórt ævintýri framundan og því er þetta tækifæri fyrir metnaðarfullt fólk að koma inn í náið teymi á spennandi tímamótum. Við munum þurfa að ráða slatta af fólki á næstu mánuðum en til að byrja með erum við að leita að hugbúnaðarsérfræðingum og vörustjórum,“ segir Jón Hilmar