SaltPay greiðir 44,3 milljóna króna sekt, eða um 340 þúsund dollara, eftir að hafa undirgengist sátt við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME).

SaltPay keypti greiðslukortafyrirtækið Borgun árið 2020 sem þá var í meirihlutaeigu Íslandsbanka. Í tilkynningu frá SaltPay kemur fram að sáttin tengist að meginstefnu til kerfum og ferlum sem sporna eiga gegn peningaþvætti og hafi verið til staðar áður en SaltPay keypti Borgun. Sáttin er sögð gerð í kjölfar athugunar FME á fyrrnefndum kerfum og ferlum.

Í tilkynningunni segir að FME hafi lagt til ákveðnar úrbætur, sem flestar tengist atriðum sem eftirlitið hafði einnig vakið athygli á í athugunum sínum á árunum 2017 og 2018, áður en SaltPay kom til skjalanna. Þá gerði FME m.a. margvíslegar athugsemdir við verklag og eftirlit fyrirtækisins með viðskiptavinum Borgunar á erlendum mörkuðum.

„SaltPay skuldbindur sig til að halda áfram að gera endurbætur á kerfum sínum og ferlum, í samvinnu við FME. Sú vinna verður leidd af nýjum íslenskum stjórnendum sem nú eru komnir að stjórn félagsins hér á landi og hafa metnað til að félagið verði leiðandi á þessu sviði til framtíðar,“ segir í tilkynningu SaltPay.