Fjártæknifyrirtækið SaltPay, sem hét áður Borgun, var ekki með starfandi innri endurskoðunardeild allt síðasta sumar, eða frá lokum apríl til 3. september 2021. Fyrirtækið braut þar með gegn ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, að því er kemur fram í tilkynningu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (FME) sem hóf athugun á málinu í ágúst 2021.

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki skal starfa endurskoðunardeild í fjármálafyrirtæki sem annast innri endurskoðun, nema að í gildi sé undanþáguheimild frá FME frá starfrækslu slíkrar deildar. Ekki var í gildi slík undanþáguheimild í tilviki SaltPay.

Sjá einnig: Brotin alvarleg og kerfisbundin

Í febrúar síðastliðnum greiddi SaltPay 44,3 milljónir króna í sekt eftir að hafa komist að samkomulagi við FME um að ljúka máli vegna brota á ákvæðum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Að mati FME voru brotin alvarleg og kerfisbundin.