Líkt og greint var frá í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, hefur myndbandsinnslag bandaríska vefmiðilsins Business Insider um vestfirska saltframleiðandann Saltverk náð mikilli útbreiðslu víða um veröld. Um 8 milljón manns hafa séð myndbandið á rúmri viku og í kjölfar innslags Business Insider hefur netsala Saltverks tífaldast. Saltverk selur vörur sínar í gegnum Amazon, auk þess sem saltframleiðandinn heldur uppi eigin netverslun.

Að sögn Björns Steinars Jónssonar, stofnanda og eiganda Saltverks, er saltframleiðslan á Vestfjörðum ekki einungis dans á rósum. Fylgifiskur saltframleiðslunnar er margs konar baráttur við náttúruöflin. Verksmiðja Saltverks lá til að mynda undir skemmdum í aftakaveðrinu sem gekk yfir landið í febrúar síðastliðnum og olli tjónið skertri framleiðslugetu til skamms tíma.

„Síðasti vetur var sá mest krefjandi sem við höfum þurft að eiga við á þeim átta árum sem fyrirtækið hefur verið starfandi. Það varð oft rafmagnslaust vegna veðurs og svo í ofsaveðrinu sem gekk yfir landið í febrúar fauk hluti af þaki af stærsta framleiðsluhúsnæði okkar. Það tjón varð til þess að framleiðslugeta okkar frá því í vor og fram á sumar var verulega skert. Við gátum þó nýtt tímabilið meðan takmarkanir voru sem mestar vegna COVID-19 til að vinna að viðgerðum. Núna höfum við lokið við allar viðgerðir og það stefnir í að ágúst verði okkar besti framleiðslumánuður frá upphafi. Við erum því vel í stakk búin til að takast á við þessa auknu eftirspurn sem hefur myndast og má segja að við höfum náð vopnum okkar á hárréttum tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .