Framkvæmdastjóri Samorku, Gústaf Skúlason, gagnrýnir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag hve langan tíma undirbúningur að byggingu virkjana og flutningsvirkja fyrir raforku getur tekið.

Regluumhverfið sé enda afar flókið og oft gengur afgreiðsla hægt innan þess flókna ramma.

„Sem dæmi um þetta flókna umhverfi má nefna að Hellisheiðarvirkjun var yfir tuttugu sinnum á borði Umhverfisstofnunar, í einu eða öðru samhengi, á undirbúnings- og framkvæmdatíma. Orkufyrirtækin hafa ekki verið að biðja um neinn afslátt af sjálfsögðum kröfum um tillit til umhverfisins og ein ástæða þess langa tíma sem getur tekið að undirbúa virkjanaframkvæmdir er einmitt þær ráðstafanir sem oft er verið að grípa til á frumstigum vegna umhverfismála. Hins vegar teljum við að það hljóti að vera svigrúm til að einfalda eitthvað þetta ferli og stytta umsagnarfrest. Það getur hreinlega ekki verið nauðsynlegt að ein framkvæmd, þótt hún sé stór, þurfi að vera yfir tuttugu sinnum á borði einnar og sömu stofnunarinnar," segir Gústaf í viðtalinu.

Gústaf sagði að einföldun á regluverkinu væri þess vegna mjög mikilvægt verkefni, en til skemmri tíma er mikilvægast að sveitarfélög og stofnanir ríkisins vinni með atvinnulífinu í þessum efnum.

„Fyrirtækin upplifa það oft svo að sumar stofnanir taki afar langan tíma í afgreiðslu mála, algerlega að nauðsynjalausu. Erindum er jafnvel ekki svarað. Allar tafir af slíkum sökum geta kostað mikla peninga. Þá getur það skipt miklu máli og sparað bæði fé og fyrirhöfn ef sveitarfélög sýna sveigjanleika og samstarfsvilja á þessu sviði. Verkefnið fram undan er þess vegna að hraða undirbúningi framkvæmda og þar skiptir miklu máli að stofnanir ríkis og sveitarfélög vinni með fyrirtækjunum."