Konan sem átti vinningsmiða í lottó síðasta laugardagskvöld hélt fyrir andlitið þegar hún kom á skrifstofu Íslenskrar getspár, svo mikið var sjokkið yfir að þetta skyldi allt standast. Á vef íslenskrar getspár segir að hún sé einstæð móðir þriggja barna og 75% öryrki eftir slys. Hún búi mjög þröngt svo fyrsta verk hennar verði að kaupa húsnæði, bíl og jafnvel einhver húsgögn. Miðann keypti hún í Ísgrilli við Bústaðaveg. Hún hálf hrasaði inn í sjoppuna því hún sá ekki þrep niður og afgreiðslukonan sagði: „Er ekki fall fararheill?“ og útbjó miðann fyrir hana, en það eru fjórar raðir með sömu tölunum sem hún hefur haft í 13 ár.

Í samtali við fulltrúa frá Íslenskri getspá sagðist hún hafa keypt þennan aukamiða á Bústaðaveginum því hún mundi ekki hvort tveggja vikna miðinn, sem hún hafði keypt áður, væri enn í gildi en þann miða keypti hún í Olís við Norðlingabraut, og hann var auk þess týndur.

Á vef Íslenskrar getspár segir að við þessar fregnir hafi runnið tvær grímur á starfsfólk Getspár og eftir rannsóknarvinnu hafi komið í ljós að sama konan átti báða miðana, en annar týndur. Nú voru góð ráð dýr. Hún var á heimleið til að snúa öllu við þegar hún spurði afa sinn heitinn hvar miðinn væri. Og það stóð ekki á svari. Hún lagði bílnum og kíkti undir sætið þar sem miðinn beið. Í stað rúmlega 42 milljóna fær hún tæpar skattfrjálsar 84,5 milljónir.