„Arðbært bankakerfi er líka forsenda þess að hér verði öruggt bankakerfi.“ Þetta sagði Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, á fundi bankans í morgun um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka. Höskuldur sagði það stundum gleymast í umræðunni að það sem hafi áhrif á starfsemi bankanna hafi einnig áhrif á getu þeirra til að þjónusta viðskiptavini. Væri þrengt að með röngum hætti gæti áhætta einnig aukist innan bankanna og aðgerðir sem hugsaðar væru til að draga úr áhættu snúist upp í andhverfu sína. Höskuldur sagði banka sem reknir væru á óhagkvæman hátt augljóslega skila sér í dýrari þjónustu. Að lokum sagðist Höskuldur vonast til að skýrsla bankans leggði sitt af mörkum til uppbyggilegrar og upplýstrar umræðu um þetta flókna viðfangsefni.

Greiningardeild Arion kynnti á fundinum nýja skýrslu um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. Meginstefið í erindi Davíð Stefánssonar, sérfræðings greiningardeildar, var að miklar breytingar hefðu þegar verið gerið á regluverki um bankastarfsemi og að aðskilnaður ætti hugsanlega ekki við hér á landi með sama hætti og t.d. í Bretlandi eða Bandaríkjunum. Undir þetta tóku þeir Paul Jenkins og Marc Lient, sérfræðingar ráðgjafafyrirtækisins McKinsey. Þeir fjölluðu meðal annars um þróun mála í Bretlandi, Sviss og Skandinavíu. Davíð lagði þó áherslu á að enn mætti bæta og breyta regluverki um fjármálastofnanir þó alger aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingabanka væri ekki endilega hentugasta leiðin.

Í máli sérfræðinga McKinsey kom jafnframt fram að eiginfjárhlutfall íslenskra banka væri sérstaklega hátt, jafnvel í samanburði við nágranna okkar í Skandinavíu. Þá væri hreinn aðskilnaður bankastarfsemi ekki einu sinni til umræðu í Svíþjóð sem þó hefði mun stærri og alþjóðlegri banka en Ísland. Þeir Jenkins og Lient hrósuðu einnig skýrslu viðskipta- og efnahagsráðherra um framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins. Þeir sögðu mikilvægt að öll skref í átt að umfangsmeira regluverki væru vel ígrunduð og tekin með víðtæku samráði við aðila markaðarins. Sama meðalið hentaði ekki öllum löndum.