„Ég er þreyttur á að heyra það að nafnlaunahækkanir hafi verið mun hærri hér en í nágrannalöndum og nú er búið að gera myndband um þetta, sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, á fundi Viðskiptaráðs í morgun. Fundurinn bar yfirskriftina Peningamálafundur Viðskiptaráðs: Hvar stöndum við fimm árum eftir hrun?

Þar átti Gylfi við nýtt myndband um kjarasamninga frá Samtökum atvinnulífisins. „Hinsvegar  er ekki minnst á gengið í þessu myndabandi. Gengið skýrir allt frávik í nafnlaunabreytingum,“ sagði Gylfi og sagði að það hafi ekki verið markmið peningamálastefnunnar að tryggja gengi, heldur að halda niðri verðbólgu.

„Verðbólguvæntingar eru 4-4,5% og af hverju ættu mínir félagsmenn að hafa aðrar væntingar en fjármálamarkaðurinn. Af hverju ættu mínir félagsmenn, að ákveða annað á meðan bankinn ákveður vexti morgundagsins út frá þessu.  Við þurfum að ákveða hvernig við ætlum að gera þetta. Við erum með sömu peningastefnu og leiddi okkur út í þessar ógöngur. Peningastefnur hafa komið löndum í vandræði en aldrei komið þeim út úr vandræðum,” sagði Gylfi.