Velta í smásöluverslun hefur ekki verið meiri í ríflega átta ár. Hún er núna á pari við það sem hún var árið 2007. Þetta sýna tölur Hagstofunnar. Á fyrri helmingi þessa árs nam veltan 198,6 milljörðum króna.

Á sama tíma árið 2007 nam veltan 199,1 milljarði, á verðlagi ársins 2016. Á milli áranna 2014 og 2015 jókst velta í smásöluverslun um 5,8% á verðlagi hvers árs og hefur hún ekki aukist jafn mikið milli ára frá því fyrir hrun.

Þessi vöxtur endurspeglast ágætlega í síðasta árshlutauppgjöri Haga, sem er annað af tveimur fyrirtækjum sem starfa á smásölumarkaði og eru skráð í Kauphöllina. Hitt er N1. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam hagnaður Haga 948 milljónum samanborið við 811 á sama tíma árið 2015. Aukningin nemur tæpum 17%. Í dag birta Hagar hálfsársuppgjör.

Árbók verslunarinnar er gefin út af Rannsóknarsetri verslunarinnar og Kaupmannasamtökum Íslands. Bókin kom út í síðasta mánuði og í henni kemur fram að hlutur verslunar af landsframleiðslunni hafi ekki mælst hærri frá árinu 2007. Í fyrra nam hann 9,6% af landsframleiðslu samanborið við 9,3% árið 2014 og 8,8% árið 2013. Í fyrra höfðu 23.800 manns verslun að aðalstarfi og fjölgaði störfum um 600 milli áranna 2014 og 2015.

Ekki alveg 2007

Það eru ólíkir kraftar sem drífa smásöluverslunina áfram nú en árið 2007. Ferðaþjónustan hefur miklu meiri áhrif á verslun hérlendis nú en hún gerði fyrir tíu árum. Þess ber þó að geta að hún hefur mismikil áhrif á fyrirtæki.

Árið 2007 var einkaneysla almennings að stórum hluta drifin áfram með neyslulánum en í dag er staðan þannig að vöxtur í einkaneyslu er nokkuð undir því sem ætla mætti að aukning ráðstöfunartekna leyfi. Á mannamáli þýðir þetta að þó að neytendur séu að versla meira eyði þeir ekki um efni fram. Sparnaður er að aukast.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .