Ferðaþjónustan hefur haldið áfram að vaxa og er svo komið að varla er til sá jarðarbúi, sem ekki vill sækja Ísland heim. Hótelum og gistiheimilum hefur fjölgað í takt við eftirspurn, en í ár eru tíu framúrskarandi fyrirtæki á lista Creditinfo sem starfa í þeim geira. Átta þessara fyrirtækja flokkast sem meðalstór og tvö sem lítil. Öll fyrirtækin nema eitt eru með veitingaþjónustu, en það er Sunnugisting ehf.

Ef litið er á ársniðurstöður fyrirtækjanna, sést að Keahótel ehf. hefur staðið sig best árið 2015. Afkoma félagsins nam nefnilega rúmum 263 milljónum króna, en fyrirtækið E.Guðmundsson ehf. í Vík Mýrdal skilaði rúmlega 154 milljónum króna í hagnað. Þar á eftir er Hótel Geysir ehf. með rúmlega 99 milljónir króna í hagnað og Höfðabrekka ehf. með tæplega 83 milljónir króna í hagnað.

E.Guðmundsson ehf. er þó skráð fyrir mestu eignunum, en eignir félagsins nema rétt rúmlega 865 milljónum króna. Hótel Geysir ehf. er með næstmestu eignirnar á efnahagsreikningnum sínum eða um 742 milljónir króna. Þá er Keahótel ehf. í þriðja sæti og á eignir sem nema um 701 milljón króna. Hafa ber í huga að fyrirtæki í hótelrekstri eru mjög oft rekstrarfélög sem leigja eignir af fasteignafélögum.

Eigið fé nam mest 460,8 milljónum króna hjá Hótel Geysi, en minnst 88,7 milljónum króna hjá Hótel Borgarnesi. Eiginfjárhlutfallið var þó hæst hjá Hótel Framtíð ehf. og nam 91,96% árið 2015. Lægst var eiginfjárhlutfallið hjá Hótel Borgarnesi og nam það 30,92%.

Samanburðurinn birtist í aukablaði Viðskiptablaðsins, Framúrskarandi fyrirtæki , í samvinnu við Creditinfo. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .