Samanlagður hagnaður Íslandsbanka og Landsbankans eftir skatta á þriðja fjórðungi ársins nemur 11 milljörðum króna. Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur samanlagður hagnaður 37,7 milljörðum króna. Arionbanki skilar þriggja mánaða uppgjöri á morgun.

Hagnaður Landsbanka Íslands á þriðja fjórðungi er ívið meiri en hagnaður Íslandsbanka, samkvæmt afkomutilkynningum frá félögunum. Uppgjör Íslandsbanka fyrir þriðja fjórðung var birt í morgun.  Hagnaður Íslandsbanka eftir skatta nam 4,2 milljörðum króna en hagnaður Landsbankans var 6,8 milljarðar króna.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur hagnaður Íslandsbanka 15,4 milljörðum króna sem er 800 milljónum krónum lægra en á sama tímabili í fyrra. Hagnaður Landsbankans á sama tímabili nemur 22,3 milljörðum króna eftir skatta. Hagnaðurinn eykst úr 13,5 milljörðum frá fyrstu níu mánuðum í fyrra sem er aukning um 65%.

Heildareignir Íslandsbanka voru 863 milljarðar króna í lok september en heildareignir Landsbankans nema 1158 milljörðum.