Halldór J. Kristjánsson, fyrrum bankastjóri Landsbankans, segir í viðtalið við Viðskiptablaðið í dag að svo virðist sem það hafi verið samantekið ráð að styðja ekki við íslenska bankakerfið.

Halldór segir í viðtalinu að úr því að alþjóðasamfélagið virtist ekki vilja veita íslenska seðlabankanum lánalínur þannig að hann gæti veitt íslenska kerfinu bakstuðning, er mögulegt að vandinn hafi verið orðinn of mikill. ,,Og eins og fleiri hjó ég mjög vel eftir yfirlýsingu Seðlabankans þar sem hann tók fram að svo virtist sem honum hefði gengið vel framan af með viðtökur við lánalínum til þess að geta stutt við kerfið hér en skyndilega hefði það stöðvast og að það hefðu virst vera samantekin ráð," segir Halldór og bætir við:

,,Hluta af því sem fór úrskeiðis virðist því mega rekja til þess að það hafi verið samantekin ráð erlendra aðila að styðja ekki við kerfið hér og það má jafnvel fullyrða að yfirvöld í einstaka ríkjum hafi torveldað íslensku bönkunum hluta af starfsemi sinni. Mér finnst að stóru seðlabankarnir sem starfa innan Evrópska efnahagsvæðisins hefðu mátt sjá það fyrir að skortur á stuðningi þeirra við íslenska bankakerfið gæti haft neikvæð áhrif á öllu Evrópska efnhagssvæðinu. Það lá í eðli þess samstarfs, sem m.a.felst í því að skapa innri markað með fjármálaþjónustu, að veita gagnkvæman stuðning. Þarna finnst mér að þessi ríki hafi brugðist okkur."

Sjá ítarlegt viðtal við Halldór í blaðinu í dag.