*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 21. nóvember 2018 11:47

Samband krónunnar og útgerðar breytt

Greiningardeild Arion banka segir sjávarútveginn hafa sífellt minni áhrif á krónuna, en hún enn mikil áhrif á hann.

Ritstjórn
Minnkandi hlutdeild sjávarútvegs í útflutningi hefur dregið úr áhrifum hans á krónuna.
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Arion banka segir samband krónunnar og sjávarútvegsins vera orðið einhliða. Krónan hafi áfram mikil áhrif á útveginn, en útvegurinn sífellt minni áhrif á krónuna.

Söguleg fylgni raungengis og launa og afkomu sjávarútvegsins er sögð mikil, en mikill vöxtur ferðaþjónustunnar hafi hækkað jafnvægisraungengi krónunnar, og því megi gera ráð fyrir varanlega auknum gengisþrýstingi á sjávarútveginn.

Auk gengisþrýstings er sjávarútvegurinn sagður hafa orðið fyrir auknum þrýstingi vegna vaxandi launakostnaðar, en hann nemi nú yfir helmingi rekstrarkostnaðar í greininni.

Greiningardeild telur að til lengri tíma litið geti hagkerfið staðið undir sterkara raungengi. Sjávarútvegurinn geti eytt eða dregið verulega úr gengisáhættu með erlendri lántöku, þannig að myntsamsetning skulda og tekna sé sem líkust.