Tap Sam-félagsins ehf., sem rekur kvikmyndahús undir nafni Sambíóanna, nam ríflega 20,6 milljónum íslenskra króna á síðasta ári, sem var viðsnúningur frá tæplega 9,5 milljóna króna hagnaði árið áður.

Tekjur félagsins drógust saman um 11,6% á árinu, úr rétt rúmlega 1,5 milljörðum króna í ríflega 1,3 milljarða, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 9,9%, úr tæplega 1,5 milljörðum í ríflega 1,3 milljarða.

Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins dróst saman um 99,5%, úr 29 milljónum króna í 154 þúsund krónur, milli ára. Handbært fé frá rekstri lækkaði um 12,3 milljónir á árinu, fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 1,5 milljónir og fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 19,1 milljón króna.

Þar með lækkaði handbært fé félagsins um tæplega 33 milljónir króna, úr 42 milljónum í 9 milljónir króna.

Eigið fé félagsins varð neikvætt á árinu, fór úr því að vera jákvætt um 1,2 milljónir króna í að vera neikvætt um 19,5 milljónir. Samhliða hækkuðu skuldir félagsins um 4,8%, úr 613 milljónum króna í 642 milljónir. Þar með jukust eignirnar um 1,4%, úr 614 milljónum í 623 milljónir króna, meðan eiginfjárhlutfall félagsins fór úr 0,2% í að vera neikvætt um 3,1%.

Framkvæmdastjóri félagsins, og þriðjungshluthafi, er Björn Ásberg Árnason, en Elísabet Lára Ásberg Árnadóttir og Alfreð Ásberg Árnason eiga sinn hvorn þriðjunginn til viðbótar á móti Birni. Árni Samúelsson er stjórnarformaður félagsins.