Systkinin Anna Ólöf Kristjánsdóttir, Ómar Arndal Kristjánsson og Ingvar Arndal Kristjánsson reka saman fyrirtækið Asco Harvester. Fyrirtækið hannar og framleiðir þangsláttuvélar; nokkurskonar sambland af skipi, pramma og vinnuvél.

Nafn fyrirtækisins er dregið af latneska heitinu yfir klóþang; Ascophyllum. Starfsemi félagsins snýr alfarið að hönnun og framleiðslu vélanna, systkinin eftirláta öðrum slátt og vinnslu þangsins. „Hugmyndin okkar og það sem felst í okkar verkefni er að búa til búnaðinn til þess að slá þangið. Við erum ekki að nýta hráefnið eða eitthvað svoleiðis. Við erum að vinna í því að finna lausnir til að betrumbæta búnaðinn sem notaður er til að ná í þennan gróður sem er í sjónum,“ segir Anna, og segir þetta sambærilegt við að Marel geri ekki út fiskiskip, og bílaframleiðendur séu ekki í flutningarekstri.

Nýsköpunin fólgin í hagnýtingu
Anna segir nýsköpunina fyrst og fremst felast í því að finna nýjustu tækni nýjan farveg, frekar en að finna hana upp. „Það er margt í þessu sem er kannski ekki nýtt í heiminum, en er verið að nýta á nýjan hátt. Sumt af þessu er uppfinning og sumt af þessu er bara svona hagræðing á búnaði. Nýsköpunin felst í skilvirkninni: öryggisatriðin í kringum prammann, glussakerfið, stýringin á færiböndunum, stýringin á prammanum sjálfum og sjálfbærni.“

Þótt nafn fyrirtækisins vísi í klóþang ná möguleikar tækninnar yfir ýmislegt fleira. Ein útfærsla er sláttur eiturþörunga. „Þetta er svona græna slímið sem leggst á hvítar baðstrendur. Þeir þörungar eru ekki eitraðir sjálfir en eru fljótir að vaxa og skapa eitrað andrúmsloft og loka súrefnið niðri.“

Önnur er ruslahreinsun. „Ruslapramminn getur tekið fljótandi rusl eða allt niður á um tveggja metra dýpi. Þetta gæti til dæmis virkað mjög vel á móti Bláa hernum sem gengur strendurnar. Þetta tekur það sem hægt er að taka á flóði og svo geta þeir gengið á fleiri hluti. Þetta breikkar svo auðvitað mögulegan kúnnahóp töluvert, hugsanlegir viðskiptavinir eru til dæmis ríkið og allskyns samtök í náttúruvernd,“ segir Anna, og bætir við að auk þess að hreinsa rusl geti pramminn nýst til að hreinsa óæskilegan gróður sem gjarnan myndast í skipaskurðum og síkjum.

Auk þess eru ýmsar fleiri hugmyndir sem eru komnar styttra á veg. „Það eru allskonar hugmyndir um frekari búnað sem er ekki ennþá byrjað að þróa, til dæmis hreinsun á olíumengun í sjó og þurrkarar fyrir þang og annan búnað tengdan vinnslu á þangi.“

Þangpramminn Sigri og systkinin í Asco Harvester
Þangpramminn Sigri og systkinin í Asco Harvester
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Systkinin ásamt prammanum Sigra meðan verið var að smíða hann.

Þangsláttur í blóð borinn
Hugmyndin, og þekkingin sem þarf til að framkvæma hana, á rætur sínar að rekja áratugi aftur í tímann, og aftur í ættir þeirra systkina. „Afi okkar er alinn upp í Purkey í Breiðafirði. Það er mikið þangsvæði í kringum það, og hann er alinn upp við að þangið sé nýtt mikið. Hann var að vinna hjá Þörungaverksmiðjunni á seinni hluta 20. aldar. Á 8. áratugnum voru keyptir 11 prammar til Þörungaverksmiðjunnar frá Bandaríkjunum, og þetta var svona risapöntun hjá því fyrirtæki, eftirminnileg ennþá í dag. Prammarnir voru hins vegar gerðir fyrir vatnasvæði, sem eru bara allt öðruvísi aðstæður en hérna heima. Þeir nýttust því ekki eins vel og vonast var eftir.“

„Afi er semsagt með þeim sem byrja á því að breyta prömmunum til að auka afköstin, og það var ýmislegt gert í því sambandi á þessum tíma.  Afi var rosalega tækjafróður og fljótur að finna lausnir. Pabbi var eins, vann alltaf á vinnuvélum alla sína ævi, og Ómar og Ingvar voru aldir upp við þetta. Þeir lærðu vélvirkjun í skóla, en við misstum pabba þegar við vorum ung þannig að þeir þurftu ungir að taka við og hjálpa meðan hann var veikur. Þeir tóku svo við fyrirtækinu þegar hann dó. Þeir unnu því mikið á tækjunum með honum og lærðu mikið af honum. Hvatningin frá mömmu í gegnum tíðina hefur þó ekki síður skipt sköpum, en hún hefur staðið eins og bjarg við bakið á okkur í gegnum þetta allt saman,“ segir Anna að lokum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .