Baráttan gegn loftslagsbreytingum er að mati Als Gore ekki lengur spurning um pólitík, heldur siðferði. Gore rakti ýmsar hörmungar í samtímanum beint til þeirra í fyrirlestri sínum og sagði mannkynið nú vera statt á „tímabili afleiðinga“ þar sem ekki mætti vanmeta ógnina líkt og Chamberlain gerði í Þýskalandsheimsókn sinni forðum.

Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna og handhafi friðarverðlauna Nóbels, flutti í gær myndskreytt erindi fyrir fullum sal í Háskólabíói. Forseti Íslands, Glitnir og Háskóli Íslands buðu Gore til landsins, en hann sat fræðslufund yfir kvöldverði á Bessastöðum eftir komu sína til landsins í fyrradag.

Gore hefur haft mikil áhrif á umræðuna um umhverfis- og loftslagsmál með bók sinni og kvikmynd „An Inconvenient Truth“ þar sem náttúruhamfarir og ýmsar neikvæðar afleiðingar gróðurhúsaáhrifanna eru málaðar sterkum litum, en fyrirlestrar Gores um sama efni þykja einnig mjög áhrifamiklir.

Það var því með talsverðri eftirvæntingu sem gestir í anddyri Háskólabíós biðu þess að salarkynni yrðu opnuð, en í hópi gesta mátti sjá fjölda áhrifafólks í íslenskum stjórnmálum, menningar- og viðskiptalífi, þar á meðal fjölda þingmanna og ráðherra. Lárus Welding, forstjóri Glitnis, setti fundinn en í kjölfar hans tók Kristín Ingólfsdóttir við fundarstjórn. Að því búnu kynnti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Al Gore sem þá steig á stokk og talaði yfir áheyrendum í um tvær klukkustundir. Myndræn framsetning lék stórt hlutverk í lestri hans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .