Unnur Sigurðardóttir, sambýliskona athafnamannsins Hannesar Smárasonar, hefur selt lúxusvillu, sem var á hennar nafni, á Fjölnisvegi 9 til Sparkle S.A., nýstofnaðs huldufélags í Lúxemborg. Frá þessu er greint í Fréttatímanum í dag. Ekki kemur fram í kaupsamningnum hvert kaupverðið er en félagið yfirtekur fasteignalán frá Landsbankanum að upphæð 74,3 milljónir.

Í Fréttatímanum er rakið eignarhald Hannesar og breytingar á því frá því að hann keypti húsið árið 2004. Fyrst í gegnum félagið Fjölnisveg 9 ehf., sem var í eigu Hannesar áður en Landsbankinn tók félagið yfir. Hannes keypti húsið af félaginu sínu í september 2007 og seldi síðan sambýliskonu sinni, Unni Sigurðardóttur, húsið í desember sama ár. Húsið var keypt fyrir 70 milljónir árið 2004 og gerði Hannes endurbætur á því fyrir 350 milljónir, samkvæmt bókhaldi hans sem komst í fjölmiðla þegar hann reyndi að fá ógilta húsleit efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra vorið 2009. Grunur efnahagsbrotadeildarinnar beindist að því að sala hússins til Hannesar, og síðar Unnar, hefði verið málamyndagjörningur vegna þess hversu lágt kaupverðið var, segir í Fréttatímanum.

Ennfremur segir:

„Um tíma var Hannes Smárason konungur Fjölnisvegarins. Hann átti bæði hús númer 9 og 11 og hugðist tengja húsin saman með göngum. Áður en honum tókst það ætlunarverk sitt yfirtók Landsbankinn félagið Fjölnisveg 9 ehf., sem átti Fjölnisveg 11 og glæsiíbúð við Pont Street í London, íbúð sem metin var á 7,5 milljónir punda eða tæplega 1,5 milljarða.

Ekkert er vitað um eigendur huldufélagsins Sparkle S.A. í Lúxemborg eða félagið sjálft nema að það er nýstofnað í hlutafélagaskrá landsins. Tveir aðilar, C. Godfrey og S. Bivek, skrifa undir samninginn fyrir hönd félagsins. Það er ekki skráð í gagnagrunn samstarfsaðila Creditinfo í Lúxemborg.

Af skötuhjúunum Unni og Hannesi er það annars að frétta að þau eru búsett í Barcelona á Spáni, nánar tiltekið á Carrer de Josep Bertrand nálægt miðborginni, í glæsilegu húsi.“