Áætlanir um samdrátt í úthlutun losunarheimilda fyrir gróðurhúsalofttegundir kunna að hrekja stóriðju úr Evrópusambandinu, eftir því sem fram kemur í opinberum gögnum sem vitnað er til í nýlegri frétt Financial Times.

Álframleiðendur í Evrópu eru taldir vera í þeim hópi sem eigi erfitt með að taka á sig aukinn kostnað sem tillögur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins myndu fela í sér, en markmið þeirra er að víkka umfang kolefnisverslunar í sambandinu. Kolefnismarkaður sambandsins nefnist ETS (Emissions Trading Scheme), en á honum ganga þær heimildir kaupum og sölum sem ekki hefur verið úthlutað gjaldfrjálst af stjórnvöldum.

Fram kemur á minnisblöðum sem Financial Times hefur undir höndum að stál-, steypu- og efnaiðnaðurinn geti jafnframt orðið fyrir skakkaföllum, og að hann gæti neyðst til að hækka verð um 5 til 48%.

Ráðherrar Evrópusambandsins eru að sögn Financial Times innbyrðis ósammála um hvort veita skuli ákveðnum geirum sérstakar undanþágur. Einnig möguleikinn væri sá að úthluta losunarheimildum gjaldfrjálst, líkt og er gert á Íslandi í krafti heimilda sem bundnar eru svokölluðu "íslensku ákvæði" við Kyoto-bókunina.

Annar möguleiki er að jafna samkeppnisstöðu evrópsks iðnaðar með kolefnistolli á innflutning frá löndum sem skylda ekki stóriðju til að taka á sig kostnað vegna samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda, en Viðskiptablaðið sagði frá slíkum tillögum í frétt á vb.is í gær.

Í umræddum minnisblöðum er lagt mat á áhrif aðgerðanna á fjölda starfa, en því er haldið fram að neikvæð áhrif í þá veru yrðu vegin upp með störfum sem skapast við færsluna yfir í kolefnislausan efnahag. Verg þjóðarframleiðsla myndi hins vegar dragast saman um 0,1%.

Evrópusambandið leitast við að koma á samdráttarmarkmiðum sem framfylgt verði óháð landamærum aðildarríkja, en við núverandi aðstæður úthlutar hvert land sínum heimildum og er í sjálfsvald sett hve stórt hlufall ratar inn á hinn sameiginlega kolefnismarkað ETS.