Hagdeild ASÍ spáir snarpri aðlögun hagkerfisins á næstunni. Atvinnuleysi mun aukast og innflutningur dragast saman. Fram undan er tveggja ára samdráttur í landsframleiðslu þar sem hagkerfið leitar nýs jafnvægis.

Í endurskoðaðri hagspá sem hagdeild ASÍ gaf út í dag, og á að gilda fram til 2010, segir að heimilin muni draga úr neyslu á næstu þremur árum. Ástæður eru sagðar minnkandi kaupmáttur, vaxandi greiðslubyrði lána og versnandi aðgengi að lánsfé. Hagdeildin spáir því að innflutingur muni dragast saman næstu tvö árin samhliða minnkandi einkaneyslu og fjárfestingum. Vegna vaxandi álframleiðslu mun útflutningur hins vegar aukast á tímabilinu.

Viðskiptahalli mun áfram vera mikill en þó er því spáð að hann fari minnkandi. Atvinnuleysi mun aukast á tímabilinu, samkvæmt spánni, en dregið hefur úr fjölgun starfa og tilkynnt hefur verið um uppsagnir. Hagdeildin sér þó engin skýr merki þess að erlendum starfsmönnum fari fækkandi.

Forsendur nýgerðra kjarasamninga munu að líkindum bresta þegar kemur til endurskoðunar í febrúar á næsta ári. Talið er líklegt að kaupmáttur launa og ráðstöfunartekna muni dragast saman á næstu árum. Verðbólga mun halda áfram að aukast út árið en því er spáð að hún taki að hjaðna undir árslok. Hún mun þó áfram verða mikil.

Segir hagdeildin að stýrivextir Seðlabankans séu nú fyrst farnir að bíta, þrátt fyrir mikið peningalegt aðhald undanfarið. Ástæðan er sögð vera þrengra aðgengi að erlendu lánsfé. Gert er ráð fyrir að stýrivextir muni áfram verða háir. Óvissa ríkir um gengisþróun, en hún ræðst af vaxtamun við löndin í kringum okkur og þróun á alþjóðafjármálamörkuðum. Gerir hagdeildin ráð fyrir að krónan verði veik allt tímabilið og gengisvísitalan verði á bilinu 143 -156.

Ofurlaun og auknar skuldir

Hagdeild ASÍ gagnrýnir ofurlaun harðlega og hefur vaxandi áhyggjur af breiðu launabili samfélagsins. Skoðuð voru laun valdhafa í samfélaginu og þau borin saman við laun almenns launafólks. Bent er á að árslaun sumra æðstu stjórnenda fyrirtækja jafnist á við árslaun hátt í annað hundrað verkamanna.

Hagdeildin sér ekki samhengi milli launa yfirmanna og árangurs fyrirtækja. Fram kemur að nauðsynlegt sé að leggjast í nánari skoðun á svokölluðum ofurlaunum.

Hagdeildin gerir vaxandi skuldir heimilanna einnig að umtalsefni. Ljóst sé að undanfarin ár hafi ráðstöfunartekjur heimilanna ekki hrokkið fyrir neyslu þeirra né staðið undir heildarútgjöldum. Skuldir hafi því hrannast upp. Meðalheimili muni þó standa af sér efnahagslegt áfall en meðal lágtekjufólks er hættan ljós.