Gera má ráð fyrir því að evrusvæðið muni ganga inn í vægt samdráttarskeið á þessu ári miðað við hagtölur sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út í dag, að sögn Olli Rehn, sem fer með efnahags-  og peningamál sambandsins. Samkvæmt svokölluðum þumalfingursreglum í hagfræði kallast það kreppa þegar hagvöxtur dregst saman tvo ársfjórðunga í röð.

Breska dagblaðið Financial Times hafði eftir Rehn sem hélt blaðamannafund í höfuðstöðvum ESB í Brussel í dag, að útlit sé fyrir að kreppueinkenni megi merkja í rúmlega helmingi aðildarríkja evrusvæðisins.

Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal og fleiri erlendir fjölmiðlar draga þær ályktanir af hagtölunum að hugsanlega dugi þær björgunaraðgerðir sem negldar voru niður í vikunni ekki til. Svo kunni að fara að bæði þurfi að stækka björgunarsjóð Evrópusambandsins og ríkisstjórnir evrulandanna að herða róðurinn og draga meira úr ríkisútgjöldum.

„Þetta er vægt og tímabundið samdráttarskeið... en vísbendingar eru um bata,“ sagði Rehn og vísaði til þess að samdrátturinn skýrist af því að dregið hafi úr eftirspurn og vöruskiptum landa á milli.