Íslenska hagkerfið er ekki lengur í samdráttarskeiði. Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, á fundi með sérfræðingum og fréttamönnum í Seðlabankanum.

„Okkur sýnist veikur efnahagsbati vera hafinn og við erum því ekki sammála því að hér ríki enn samdráttarskeið,“ sagði Már.

Már sagði aðspurður að Seðlabankinn hefði lagt „gígantíska vinnu“ í að ljúka áætlun um afnám gjaldeyrishafta en að fleiri aðilar komi að vinnunni, í því samhengi nefndi hann AGS, og því sé vinnunni ekki lokið. „Það er mikilvægt að þessi vinna sé vönduð,“ sagði Már og sagði vinnunni ljúka brátt. Hann sagði jafnframt að ekki yrði farið þannig í afnám hafta að það muni kollvarpa þeim stöðugleika sem náðst hefur í efnahagsmálum.

Aðspurður sagði Már að þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave hafi ekki tafið vinnu við áætlun um afnám hafta. Hann sagði áætlun birta þegar allir sem að vinnunni kæmi væru sáttir við drögin.