Hagstofan birti þjóðhagsreikninga fyrir þriðja ársfjórðung í morgun en samkvæmt þeim hefur dregið verulega úr hagvexti, vexti einkaneyslu og fjárfestingu. Á þriðja ársfjórðungi mælist hagvöxtur nú 0,8% frá sama tímabili fyrir ári síðan og hefur þá aldrei verið minni síðan í lok árs 2003. Vöxtur einkaneyslu á sama tímabili er 2% og hefur þá ekki verið eins lítill frá því í lok árs 2002. Fjárfesting dróst saman um 1,6% en þar hefur ekki orðið samdráttur síðan árið 2002.

Greining Glitnis segir í Morgunkorni sínu í dag að þessar tölur beri þess skýrt merki að umskipti eru um það bil að skella á í hagkerfinu. Tímabil stöðnunar og samdráttar tekur nú hugsanlega við af uppsveiflunni sem hefur einkennt hagkerfið undanfarin ár, segir greining Glitnis.

Þá bendir Glitnir á að niðurstöður þjóðhagsreikninga eru afar mikilvægar fyrir næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans sem verður þann 21.desember næstkomandi. Þannig eru þær til þess fallnar að draga talsvert úr líkum þess að Seðlabankinn hækki vexti. Þessum til stuðnings eru svo mælingar verðbólgu í desember sem Hagstofan birti á þriðjudag en verðbólga stóð nánast í stað og hækkaði eingöngu um 0,04% á milli mánaða, tólf mánaða verðbólga lækkaði hinsvegar úr 7,3% í 7%.