Því er oft haldið fram að fyrstu einkenni efnahagslægðar megi finna hjá auglýsingastofum. Forsvarsmenn nokkurra auglýsingastofa, sem Viðskiptablaðið ræddi við í gær, voru sammála um að greina mætti samdrátt í greininni. Ef ekki hjá þeim sjálfum þá hjá öðrum stofum sem þeir þekktu til. Að þeirra sögn merktu þeir fyrst samdrátt undir lok síðasta árs og í upphafi þessa árs. Allir nefndu að upphaf samdráttarskeiðsins mætti rekja til aðgerða fjármálafyrirtækja en þau hófu flest að draga saman seglin á þessum tímapunkti.

Það er misjafnt eftir atvinnugreinum hve fyrirtæki hafa dregið mikið úr markaðskostnaði. Að fjármálastofnunum undanskildum er helst um að ræða, að þeirra sögn, fyrirtæki sem selja dýrar vörur sem krefjast að öllu jöfnu lántöku kaupanda, t.d. bílar. Í öðrum atvinnugreinum væri ekki að merkja mikinn samdrátt, t.d. hjá fjarskiptafyrirtækjum og matvöruverslunum. Nokkrir viðmælendur Viðskiptablaðsins töldu nær öruggt að einhver gjaldþrot yrðu í greininni í vetur eða að um sameiningar yrði að ræða.

,,Það mun örugglega draga til tíðinda í þessum bransa fljótlega,” sagði einn viðmælenda blaðsins sem ekki vildi koma fram undir nafni. „Það eru ekki svo margar stofur hér ef maður hugsar um mögulegar sameiningar. Og ein stofa vinnur ekki fyrir fleiri en eitt fyrirtæki í hverri atvinnugrein.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .