Frönskum neytendum þykir of mikið að borga yfir hálfa evru (47 krónur) fyrir vatnsflösku og sniðganga nú flestar af þekktustu vatnstegundum Frakklands, Badoit, Perrier, Evian, Vittel og Volvic, segir í frétt The Times.

Hefur þessi niðursveifla þegar haft áhrif á fyrirtækin Danone og Nestlé, en þau ráða yfir 80% af vatnsmarkaði Frakklands, sem er nú um 2,2 milljarða evra virði (208 milljarðar króna). Franska fjölskyldufyrirtækið Danone á vörumerkin Badoit, Evian og Volvic, en svissneski samkeppnisaðilinn, Nestlé, á Perrier og Vittel.

Sala á átöppuðu vatni dróst saman um 3,8% á síðasta ári, samkvæmt franska dagblaðinu Le Figaro og stefnir í sambærilegan samdrátt í sölu á þessu ári. Sala á sódavatni minnkaði um 7,5% árið 2005, en Frakkar drekka að meðaltali 149 lítra af sódavatni á ári. Til samanburðar má nefna að Englendingar drekka aðeins um 37 lítra á ári. Frakkar virðast nú snúa sér í auknum mæli að ódýrari vatnstegundum og jafnvel kranavatni, sem löngum var talið óhæft til drykkjar.

Vatn á heimsmarkaði er þó sífellt að auka við sig og stefnir í að árið 2012 verði vatnsmarkaðurinn 60 milljarða evra virði. En þróunin í Frakklandi veldur hagsmunaaðilum á vatnsmarkaðnum áhyggjum. Hún sýnir að fólk virðist til óviljugt að eyða peningum í kolsýrt vatn á þeim forsendum að það sé hollara. En herferðir sem segja til um það hafa verið í gangi í Frakklandi í mörg ár og eru nú uppi efasemdir um sannleiksgildi þeirra, þar sem talsmenn vatnsveitufyrirtækja segja ekkert sanna að kolsýrt vatn sé hollara en kranavatn.