Samanlagður hagnaður tryggingafélaganna á fyrri hluta ársins nam ríflega 2,1 milljarði króna. TM hagnaðist um 1.174 milljónir, Sjóvá um 709 milljónir og VÍS 238. Í sama tíma í fyrra skiluðu félögin þrjú samtals tæplega 3,4 milljarða hagnaði og nemur samdrátturinn milli ára því 37%. Ástæðan fyrir þessu er að rekstrarniðurstaða Sjóvár og VÍS versnaði til muna milli ára. Á fyrri hluta síðasta árs högnuðust þau hvort um sig um 1,4 milljarða króna. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að fjárfestingartekjur félaganna drógust mikið saman milli ára.

TM hagnaðist um 550 milljónir á fyrri hluta síðasta árs og því batnaði rekstrarniðurstaða félagsins milli ára. Meginskýringarnar eru eigin iðgjöld félagsins hækkuðu og tjónakostnaður lækkaði. Þá stóð félagið sig betur á fjárfestingamarkaði.

Jafnvel þó uppgjör Sjóvár og VÍS hafi ekki verið sérlega góð hafa hlutabréf í félögunum hækkað í Kauphöllinni. Útskýrist það líklega aðallega af eignahreyfingum á mörkuðum. Verðbréfasöfn félaganna eru að stærstum hluta bundin í skuldabréfum og ávöxtunarkrafa þeirra hefur lækkað töluvert síðan uppgjörin voru birt rétt fyrir síðustu mánaðamót.

Erfiður rekstur

Jóhanna Katrín Pálsdóttir, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að tryggingarekstur hafi verið erfiður á fyrri hluta þessa árs.

„Að sumu leyti kemur sú þróun ekki á óvart en aukin umferð skilar aukinni tjónatíðni og þrátt fyrir að verðlag hafi hækkað nokkuð þá duga þær hækkanir ekki til," segir Jóhanna Katrín. „Samkeppni virðist vera talsverð, í það minnsta á einstaklingsmarkaði. Við erum að sjá talsverðan tekjuvöxt hjá TM og VÍS sem kemur vísast hvoru tveggja til af bættri verðlagningu og einhverri aukinni skírteinaútgáfu. Hvað fjárfestingar félaganna varðar þá voru markaðar náttúrulega erfiðir, sérstaklega á öðrum ársfjórðungi. Hins vegar hafa félögin haft ágætis afkomu af óskráðum eignum."

Í framhaldi af þessu má geta þess að í uppgjöri Sjóvár (skýringu 6) kemur fram að gerð hafi verið 610 milljóna króna matsbreyting á óskráðum eignum í fyrri helmingi ársins, en sú upphæð slagar hátt í að samsvara hagnaði félagsins á sama tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .