*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Innlent 1. september 2021 17:03

Samdráttur Endor litar uppgjör Sýnar

Áskrifendamet var slegið í sögu 25 ára sögu Stöðvar 2 Sport í sumar, þökk sé EM í fótbolta.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar
Eva Björk Ægisdóttir

Tap var af rekstri Sýnar á öðrum ársfjórðingi sem nam 117 milljónum, samanborið við 60 milljóna tap á sama tíma í fyrra. Tekjur Sýnar af seldum vörum og þjónustu námu 5,3 milljörðum á öðrum ársfjórðungi og lækkuðu um 98 milljónir, eða um 1,8%, frá sama fjórðungi síðasta árs. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Sýnar.

Neikvæður tekjuvöxtur er sagður skýrast af samdrætti í tekjum af reiki ásamt samdrætti hjá dótturfélaginu Endor, sem Sýn keypti árið 2019. Fram kemur að tekjur upplýsingatæknifyrirtækisins Endor á fyrri árshelmingi hafi dregist saman um 650 milljónir á milli ára.

Framlegð Sýnar dróst saman um 6,4% og nam um 1,5 milljörðum króna. Afkoma félagsins fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var neikvæð um 58 milljónir.

Bemt er á að samstæðan sé með hluta af sínum kostnaði í erlendri mynt. Breyting á gengi krónunnar er sagt hafa haft talsverð áhrif til hækkunar á kostnaði frá því að heimsfaraldurinn byrjaði. Áhrifin eru mest á kostnaðarverð sýningarétta sem endurspeglast í hærri afskriftum í rekstrarreikningi og kostnaði í erlendri mynt sem tengist fjarskiptastarfsemi félagsins.

Tekjur fjölmiðlunar aukast um 13% á milli tímabila, að miklu leyti vegna aukinnar sölu á áskriftum innan fjölskyldupakkanns og EM. Í fjárfestakynningu kemur fram að áskrifendamet hafi verið slegið í sögu Stöðvar 2 Sport og er þar sérstaklega þakkað Evrópumótinu í fótbolta.

Auglýsingatekjur hækkuðu um 19% á fyrri helmingi árs 2021 samanborið við fyrra ár, hækkunin kemur nánast öll fram á öðrum ársfjórðungi en þar skiptir mestu EM og góð tekjuaukning á Vísi en tekjur þar jukust um 43% á milli árshelminga.

Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1,4 milljörðum samanborið við 1.7 milljarða á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 18%. Frjálst fjárflæði jókst þó um 61,8% milli ára og nam 1,7 milljörðum.

Eignir samstæðunnar námu 28,4 milljörðum, eigið fé 8,1 milljarði og eiginfjárhlutfall því 28,5% í lok júní.

Þann 31. mars var skrifað undir samninga um sölu á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Viðskiptin munu styrkja efnahagsreikning félagsins. Umsamið söluverð er um 7,1 milljarður og nemur væntur söluhagnaður yfir 6,5 milljörðum króna. Væntingar eru um að samþykki fyrir sölunni fáist á næstu dögum. Fram kemur að söluverði verði ráðstafað til lækkunar á lánum, endurkaupa á hlutabréfum og í nýfjárfestingar.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

„Grunnreksturinn heldur áfram að batna líkt og frjálst fjárflæði ber með sér (1.611 m.kr.), sem er að mínum dómi besti mælikvarðinn á rekstur. Frjálst fjárflæði hefur tekið algerum stakkaskiptum frá árunum 2018 og 2019 (-143 m.kr. og 720 m.kr.).

Í fyrsta skipti síðan árið 2018 er vöxtur í fjarskiptatekjum. Það er ekki vegna aukinna fjárfestinga, heldur betri nýtingu á þeim kerfum sem við eigum fyrir líkt og ég lýsti fyrir ári síðan. Í fjölmiðlarekstrinum sjáum við fjölgun áskrifenda og aukningu í sölu auglýsinga. Breyting Stöðvar 2 í hreina áskriftarstöð, með lokun fréttaglugga, hefur sannarlega borgað sig með þúsundum nýrra viðskiptavina án þess að auglýsingatekjur hafi minnkað að ráði. Stöð 2 Sport og Stöð 2+ eru svo í miklum vexti og hafa aldrei verið sterkari. Það sama má segja um Vísi sem eykur forskot sitt á aðra miðla í hverri viku. Á Vísi er verið að þróa framboð nýs efnis á bakvið greiðslugátt, með Blökastinu, sem fer frábærlega af stað, og með nýjum viðskiptamiðli sem Hörður Ægisson og Ólöf Skaftadóttir ritstýra. Vísir hefur mikla möguleika til framtíðar sem almennur upphafspunktur fyrir íslenskt efni og þjónustu.

Velta Endor dregst saman um tæplega 650 m.kr. að hluta til útaf heimsfaraldrinum Framtíðarhorfur þar eru hins vegar góðar. Áhrifa heimsfaraldursins gætir minna á öðrum sviðum.

Stærsta fjárfesting síðustu missera hefur verið í upplýsingakerfum okkar. Sú fjárfesting gat af sér Fjölskyldupakkann í lok fyrsta ársfjórðungs og mun opna á nýjar spennandi vörur á næstu fjórðungum. Við erum í föstu reikningssambandi við helming allra heimila landsins og hátt í helming fyrirtækja sem býður upp á stór tækifæri í vöruþróun.

Við bíðum eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins vegna sölu á óvirkum innviðum í farsímakerfinu. Við búumst við niðurstöðu á næstu dögum og andvirðið mun vera að hluta notað til að greiða niður skuldir en einnig til endurkaupa hlutabréfa og nýfjárfestinga.“

Stikkorð: Sýn