Hagkerfi evrusvæðisins dróst saman um 0,2% á milli fjórðunga á öðrum ársfjórðungi. Samdrátturinn nemur 0,4% miðað við sama tímabili í fyrra, samkvæmt upplýsingum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er í samræmi við hagspá Reuters-fréttastofunnar.

Bandaríska fréttastofan CNBC rifjar upp að samdráttur á evrusvæðinu á síðasta ári hafi gengið til baka á fyrsta ársfjórðungi. Það þýðir að þótt hagkerfið hafi dregist saman á ný á öðrum fjórðungi ársins þá sé kreppa ekki runnin upp á evrusvæðinu á nýjan leik. Almennt er talað um að kreppa sé skollin á þegar hagvöxtur hefur dregist saman í tvo ársfjórðunga í röð.

Talsverður munu er á hagtölum einstakra evruríkja. Hagvöxtur mældist 0,3% í Þýskalandi á fjórðungnum sem var 0,1 prósentustigi meira en spár hljóðuðu upp á. Hagvöxtur mældist 0,2% á sama tíma í Austurríki og Hollandi. Þá var stöðnun í frönsku efnahagslífi á sama tíma. Segja má að það sé betri niðurstaða en gert var ráð fyrir en búist var við samdrætti í landinu. Þetta er hins vegar þriðji ársfjórðungurinn í röð sem enginn hagvöxtur mælist í Frakklandi.

Á hinn bóginn dróst hagkerfi Finna saman um 0,7% á öðrum ársfjórðungi.

Staðan er öllu verri hjá skuldugustu evruríkjunum sem glímt hafa við fjárhagsvanda upp á síðkastið. Þau voru hins vegar fjarri því í jafn vondum málum. M.a. nam samdrátturinn 2,1% í Portúgal og sáust aðrar eins tölur ekki á evrusvæðinu á öðrum ársfjórðungi. Samdrátturinn á Spáni nam á sama tíma einungis 0,4%.