Hagkerfi evruríkjanna skrapp meira saman á fyrsta fjórðungi þessa árs en gert hafði verið ráði fyrir og var þetta sjötti fjórðungurinn í röð þar sem samanlögð verg landsframleiðsla þeirra skrapp saman, að því er kemur fram í frétt New York Times. Samdrátturinn nam 0,2% og var því minni en 0,6% samdráttur á evrusvæðinu á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, en meðalspá hagfræðinga gerði hins vegar ráð fyrir 0,1% samdrætti. Hagkerfi allra ESB-ríkjanna skrapp saman um 0,1%.

Nær enginn hagvöxtur var í Þýskalandi, stærsta hagkerfi sambandsins, og nam hann aðeins 0,1%. Franska hagkerfið skrapp saman um 0,2% og þar sem þetta er annar fjórðungurinn í röð þar sem verg landsframleiðsla Frakklands dregst saman uppfyllir það algengustu skilgreininguna á efnahagslegri kreppu.

Frammistaða breska hagkerfisins var öllu betri, en í síðasta mánuði var greint frá því að hagvöxtur upp á 0,3% hefði mælst þar á fyrsta fjórðungi ársins. Hagkerfi Spánar dróst saman um 0,5% og hagkerfi Ítalíu sömuleiðis.