Velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu á Íslandi var 267 milljarðar króna á síðasta ári samkvæmt virðisaukaskattskýrslum. Veltan nam 637 milljörðum króna árið 2019 og því nam samdrátturinn á veltu ferðaþjónustunnar 58% á síðasta ári. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.

Velta gististaða lækkaði úr 99,4 milljörðum króna árið 2019 í 35,3 milljarða á síðasta ári, sem er 64% lækkun milli ára. Velta veitingasölu og -þjónustu dróst saman um 30% milli ára, eða úr 93,5 milljörðum króna í 65,4 milljarða. Velta ferðaskrifstofa og skipuleggjanda á Íslandi nam 17,4 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við 79,1 milljarð árið áður, sem er um 78% samdráttur.

Samdrátturinn á veltu farþegaflugs samkvæmt virðisaukaskattskýrslum dróst saman um 59% eða úr 229 milljörðum króna árið 2019 í 94 milljarða á síðasta ári. Sömuleiðis dróst þjónustustarfsemi tengd flutningum með flugi um 73% milli ára.

Í nóvember til desember á síðasta ári var velta einkennandi greina ferðaþjónustunnar ríflega 31 milljarður króna sem er 64% samdráttur miðað við sama tímabil ári fyrr.