ALP hf., sem rekur meðal annars bílaleigu undir merkjum Avis og Budget hér á landi, tapaði 39 milljónum króna á síðasta ári en hagnaðist um 38 milljónir króna árið á undan. Eigið fé félagsins nam ríflega milljarði króna í lok árs 2019, eignir 7,3 milljörðum króna og skuldir ríflega 6,2 milljörðum króna.

Fasteignir félagsins voru metnar á 1,05 milljarða króna í árslok og bifreiðar á 5,3 milljarða króna. Í skýrslu stjórnar kemur fram að að stjórnendur meti endursöluverð bifreiðanna á 6,3 milljarða króna eða um milljarði krónum hærra en bókfært verð þeirra.

Rekstrartekjur lækkuðu úr 4,9 milljörðum króna í 4,5 milljarða króna á milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins lækkaði úr 314 milljónum króna í 213 milljónir króna á milli ára.

Félagið greiddi 100 milljónir króna í arð á síðasta ári en ekki er lagt til að arður verði greiddur út á þessu ári. Stöðugildi hjá félaginu voru 128 og fækkar um sex á milli ára. Laun og launatengd gjöld lækkuðu úr 1,46 milljörðum króna í 1,29 milljarða króna á milli ára. Fjárfestingafélagið RAC Holding, rekstraraðili Avis og Budget í Skandinavíu, á 46% hlut í íslenska félaginu.

Þá á Hjálmar Pétursson, forstjóri ALP, um 36% hlut í félaginu og Þorsteinn Þorgeirsson, framkvæmdastjóri bifreiðasviðs ALP, um 18% hlut, báðir í gegnum félagið Ljúfur ehf.