Forsvarsmenn bandaríska tölvuframleiðandans Dell segja væringar framundan hjá fyrirtækinu í skugga samdráttar í sölu á nýjum tölvum. Fyrirtækið hagnaðist um 732 milljónir dala á öðrum ársfjórðungi samanborið við 890 milljónir á sama tíma í fyrra. Tekjur fóru úr 15,7 milljörðum dala í 14,5 milljarða.

Af einstökum liðum dróst sala á einkatölvum saman um 22%. Fjármálastjóri fyrirtækisins segir almenning nú kaupa ódýrari tölvur en áður. Þá telur hann ekki útilokað að þeir sem hyggist endurnýja tölvukost sinn ætli að bíða þar til ný útgáfa af Windows-stýrikerfinu komi út í október.

Þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem afkoma Dell dregst saman.

Í umfjöllun netútgáfu bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal segir að fyrirtækið vinni að því að beina kröftum sínum frá sölu á einkatölvum og til þjónustu og tæknilegrar ráðgjafar auk sölu á netþjónum og skyldum tölvubúnaði,  s.s. fyrir gagnaver. Sala á þeim búnaði jókst um 14% á milli ára en tekjur af þjónustu og ráðgjöf um 3%.