*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 5. febrúar 2020 16:39

Samdráttur hjá Dominos á Ísland

Meðan breska Domino´s keðjan stefnir að sölu rekstrar síns á Norðurlöndum dregst salan þar saman.

Ritstjórn
Domino´s pizzur eru girnilegur matur enda hafa Íslendingar hesthúsað þær í sig síðustu ár þó aðeins dragi úr sölu nú.

Sala hjá Dominos á Íslandi dróst saman um 2,5% í krónum talið en nærri 6% ef horft er fram hjá nýjum útibúum. Á sama tíma jókst salan hjá bresku Domino´s pizzakeðjunni, sem eiga nú starfsemina hér á landi, í heild, þó samdráttur væri einnig á öðrum stöðum keðjunnar utan Bretlands.

Í viðskiptayfirliti sem félagið hefur sent frá sér kemur fram að sala í íslenskri mynt hafi dregist saman um 2,5% á fjórða ársfjórðungi, meðan salan hafi dregist saman um 5,9% ef horft er til samanburðarhæfs fjölda staða. Ástæðan er sögð veikar markaðsaðstæður hér á landi.

Hins vegar hafi sala keðjunnar í heild aukist um 3,7% heilt yfir, í 352 milljón pund, eða sem samsvarar 57,7 milljörðum íslenskra króna á ársfjórðungnum miðað við sama tíma ári fyrr. Í heildina hefur samdráttur keðjunnar utan Bretlands, en hún er með starfsemi í Sviss, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, numið 5% samanburðarhæft, en 1,4% í gjaldmiðlum hvers lands fyrir sig.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í október síðastliðnum hefur keðjan hug á að selja rekstur sinn bæði hér á landi og á hinum Norðurlöndunum, en félagið hafði keypt síðustu hlutina í félaginu af Birgi Erni Birgissyni og Steinari Braga Sigurðssyni, ekki löngu áður en sagt var frá því í ágúst.

Þá kom jafnframt fram í fréttum að eigið fé Eyju, fjárfestingarfélags Birgis Þórs Bieltvedt og Eyglóar Bjarkar Kjartansdóttur, sem selt höfðu helming í Domino´s á Íslandi til breska félagsins, hafi numið þremur milljörðum króna.

Nokkrum mánuðum fyrr, eða í mars kom fram að Íslendingar væru methafar í Domino´s áti, en þá um sumarið kom í ljós að hagnaður af starfseminni hér á landi nam 456 milljónum króna á árinu 2018.

Domino´s keðjan opnaði 12 nýja staði á árinu í Bretlandi á ársfjórðungnum, en engann þess utan. Vöxtur var í sölu í Sviss, eða um 1,2% miðað við gjaldmiðilinn, en magnið dróst saman um 8,3%.

Í Noregi, sem bætt hafði við sig tveim stöðum yfir árið, þar sem félagið rekur 56 staði (9 af þeim undir vörumerkinu Dolly Dimple´s), dróst sala í norskum krónum saman um 10,% í norskum krónum, þar af 5,6% á Domino´s stöðunum sjálfum. Magnsalan dróst hins vegar saman um 18,4%.

Hér má sjá frekari fréttir um Domino´s og skyld félög: