Útgerðarfélagið Gjögur á Grenivík hagnaðist um 194 milljónir króna en árið áður nam hagnaðurinn 640 milljónum króna. Veltan dróst saman um 900 milljónir milli ára og nam 5,7 milljörðum árið 2024. Í skýrslu stjórnar segir að lækkun tekna og afkomu skýrist fyrst og fremst vegna minni veiða í uppsjávarveiðum, þá sérstaklega loðnu.

Systkinin Anna Guðmundsdóttir og Ingi Guðmundsson eru stærstu eigendur félagsins en þau eiga hvort um sig rúmlega 22% hlut. Aðalheiður, Sigríður, Oddný, Björgólfur og Guðjón Jóhannsbörn eiga hvert um sig tæplega 9% hlut. Loks eiga Freyr, Þorbjörn og Marinó Njálssynir hver um sig tæplega 4% hlut.

Kjálkanes, fjárfestingarfélag í eigu sömu aðila, hagnaðist um 1.817 milljónir króna og dróst saman um hálfan milljarð milli ára. Nettó fjárfestingartekjur námu ríflega 1.940 milljónum króna og drógust saman um 390 milljónir milli ára. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,1 milljarð en voru jákvæð um 1,8 milljarða árið áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.