Landsframleiðsla dróst saman um 0,2% að meðaltali innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er annað skiptið sem slíkt gerist síðan á fyrsta fjórðungi árið 2009 en þá nam samdrátturinn 2,3%.

Breska dagblaðið Telegrap hefur upp úr gögnum OECD að samdrátturinn sé mestur innan aðildarríkja Evrópusambandsins en þar dróst landsframleiðsla saman um 0,5% á fjórðungnum. Á meðal ríkjanna þar sem landsframleiðsla dróst saman eru Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland og Bretland. Kanada er eina ríkið af sjö helstu iðnríkjum heims þar sem hagvöxtur mældist.