Tekjur veitingastaðakeðjunnar Serrano á Íslandi drógust saman úr 944 milljónum í 876 milljónir króna milli áranna 2018 og 2019. Rekstrarhagnaður lækkaði úr 47,6 milljónum í 17,5 milljónir króna. Þá lækkaði hagnaður félagsins úr 11,3 milljónum króna í 9,4 milljónir króna.

Í ársreikningnum kemur fram að félagið hafi orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu vegna COVID-19 og samkomutakmarkana þeim tengdum á árinu 2020 auk þess að enn sé „óvíst hvaða langtímaafleiðingar þetta mun hafa, þó er ljóst að áhrifin verða talsverð,“ eins og segir í ársreikningnum.

Eigið fé félagsins nam 64,5 milljónum króna í lok árs 2019, langtímaskuldir 74 milljónum og skammtímaskuldir 61 milljón króna. Eignir námu tæplega 200 milljónum króna.

Serrano var stofnað árið 2002 og er í eigu Emils Helga Lárussonar. Félagið rekur í dag 10 veitingastaði, þar af átta á höfuðborgarsvæðinu, einn í Reykjanesbæ og einn á Akureyri.