Sænski símaframleiðandinn Ericsson birti uppgjör annars ársfjórðungs í dag. Sala félagsins dróst saman um 9% og nam 2,3 milljörðum evra. Óhagstæðar gengishreyfingar eru sagðar helsta ástæða samdráttarins, en einnig hefur vöxtur sölu dýrari símtækja og aukin samkeppni sett mark sitt á uppgjörið.

EBIT var neikvæð um 0,1%, miðað við jákvæða á sama tíma í fyrra upp á 10%. Hálf fimm-fréttir Kaupþings greina frá því að meðalverð seldra símtækja hafi lækkað, bæði miðað við síðasta fjórðung og sama tímabil í fyrra.

Í tilkynningu frá Sony-Ericsson segir að hagræðing muni eiga sér stað innan fyrirtækisins á komandi mánuðum, og fyrirhugað er að halda fyrri markmiði um 10% söluaukningu á árinu. Hagræðingaraðgerðum er síðan ætlað að spara allt að því 300 milljónir evra árlega.