Það sem af er árinu 2010 hefur sala á áfengi dregist saman í lítrum talið um 7,8% miðað við sama tímabil árið 2009. Hefur salan minnkað í nær öllum flokkum áfengis en mismikið. Samdrátturinn hefur verið mest áberandi í sterkum og blönduðum drykkjum og dróst salan saman um 24% á milli ára og sala á blönduðum drykkjum hefur minnkað um tæp 36%. Sala á hvítvíni og rauðvíni hefur minnkað um 3,5 - 3,9% á milli ára þar sem af er ári. Þá hefur sala á bjór minnkað um tæp 8%.

Athyglisvert er að skoða þetta í því samhengi að innflutningur á sykri hefur verið að aukast hægt og bítandi frá 2006 samfara hækkandi áfengisverði, eða úr 9.257 tonnum í 10.105 tonn árið 2009. Var aukningin í fyrra um 10% frá árinu 2008. Þó virðist hafa hægt örlítið á sykurinnflutningnum það sem af er þessu ári eftir verulegan kipp í kjölfar þess að kynntar voru verulegar hækkanir á áfengisgjöldum um mitt ár 2009.