Bandaríska hagkerfið skrapp saman um 0,1% á fjórða ársfjórðungi 2012 og er það í fyrsta skipti í þrjú ár sem samdráttur mælist í hagkerfinu. Er þetta mikill viðsnúningur frá þriðja fjórðungi, en þá mældist 3,1% hagvöxtur. Margir þættir höfðu neikvæð áhrif á mældan hagvöxt á fjórðungnum, til dæmis mjög mikill niðurskurður í útgjöldum til varnarmála, minnkandi útflutningur og minni birgðasöfnun fyrirtækja en áður.

Þessi þróun kann að ýta undir áhyggjur af því hvort bandaríska hagkerfið sé tilbúið til að takast á við skattahækkanir og niðurskurð opinberra útgjalda sem tóku gildi í janúar. Þá er gert ráð fyrir frekari niðurskurði útgjalda á næstu vikum eða mánuðum.

Á móti kemur að einkaneysla, fjárfesting fyrirtækja og fjárfesting í íbúðarhúsnæði jukust nokkuð á tímabilinu. Alls mældist hagvöxtur árið 2012 2,2% sem er betri árangur en árið 2011 þegar hagvöxtur mældist 1,8%.