Hagkerfi Rússlands dróst saman um 3,7% á síðasta ári samkvæmt frumskýrslu Hagstofu landsins. Efnahagur landsins er nú í kreppu , en smásala dróst saman um 10% og fjárfestingar um 8,4%.

Mikil lækkun olíuverðs hefur komið sér afar illa fyrir efnahag landsins. Olíuverð hefur lækkað um 70% á síðustu 15 mánuðum, en um helmingur tekna Rússlands koma sölu á olíu og gasi. Viðskiptaþvinganir sem lagðar hafa verið á landið vegna aðgerða Rússlands í Krímskaganum og Úkraínu hafa einnig haft töluverð áhrif.

Forsætisráðherra Rússlands, Dmitry Medvedev sagði nýlega að breyttar aðstæður gætu leitt til þess að endurskoða þyrfti fjárlög ársins 2016. Í fjárlögum fyrir þetta ár var gert ráð fyrir teknum af olíu miðað við að olíuverð yrði um 50 dalir á tunnuna, verð á olíu í dag er um það bil 30 dalir á tunnuna.

Þrátt fyrir aðstæður í hagkerfinu tilkynnti McDonalds að skyndibitakeðjan ætlaði að opna 60 nýja veitingastaði í landinu.

Viðskiptablaðið hefur undanfarið fjallað ítarlega um versnandi efnahag Rússlands. Fyrir stuttu hrundi gjaldmiðill landsins, rúblan , í lægsta gildi í sögu landsins og einnig var greint frá því að varasjóðir landins væru að tæmast.