Velta í dagvöruverslun jókst um 0,3% á föstu verðlagi í júlí miðað við sama mánuð í fyrra og um 18,6% á breytilegu verðlagi.

Leiðrétt fyrir árstíðarbundnum þáttum var hins vegar samdráttur í veltu dagvöruverslana um 2,4% frá sama mánuði í fyrra.

Þetta kemur fram í mánaðarlegri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar um smávöruverslun.

Þar kemur fram að verð á dagvöru í júlí hækkaði um 0,2% frá mánuðinum á undan. Á síðustu tólf mánuðum hækkaði verð á dagvöru um 18,3%.

Mesti samdrátturinn milli ára var í húsgagnaverslun en þar minnkaði veltan um 45,4% á föstu verðlagi miðað við júlí í fyrra og um 13,2% á breytilegu verðlagi. Í júlí hafði verð á húsgögnum hækkað um 24,5% á síðasta 12 mánuðum tímabili.

Sala á raftækjum í júlí dróst saman um 33,7% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 6,5% á breytilegu verðlagi.

Þá minnkaði fataverslun sem var 11,4% minni í júlí á föstu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra en jókst um 14,7% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Í júlí stóðu yfir sumarútsölur á fötum enda lækkaði verð á fötum um 7,7% frá mánuðinum á undan en verð á fötum var samt 29,5% hærra en í júlí í fyrra.

Verðhækkanir á áfengi draga ekki úr neyslu

Af þessum tölum má ráða að enn er samdráttur í einkaneyslu. Rannsóknarsetur verslunarinnar segir að hin sáralitla magnaukning (0,3%) í dagvöruverslun í júlí skýrist líklega af því að í ár var föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi síðasti dagur júlímánaðar, en í fyrra var sá föstudagur í ágúst.

Rannsóknarsetur vekur þó athygli á því að áfengissala jókst um 40,2% á breytilegu verðlagi og um 2,1% á föstu verðlagi í júlí.

„Svo virðist því sem miklar verðhækkanir á áfengi hafi ekki dregið úr magni áfengiskaupa í júlí,“ segir í skýrslur rannsóknarsetursins.

„Þó verður að taka tillit til þess að í fyrra voru fjórir föstudagar í júlí en í ár voru þeir fimm og sá síðasti var daginn fyrir verslunarmannahelgi, en föstudagar eru jafnan söluhári dagar í áfengissölu.“

Sjá nánar í skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar.