Samkvæmt talningu vefmiðilsins Túrista fækkaði brottförum frá Keflavíkurflugvelli um 10% í febrúar miðað við sama mánuð árið 2018. Í fréttinni segir að þotur Wow air hafi að jafnaði tekið nítján sinnum á loft frá Keflavíkurflugvelli dag hvern í febrúarmánuði í fyrra, en sl. febúar hafi brottfarir félagsins verið um fjórtán á dag, sem sé um fjórðungs samdráttur milli ára. Þá segir að samdrátturinn sé meiri í sætum talið þar sem engar breiðþotur sé lengur í flugflota Wow air.

Þessi mikla breyting í flugframboði Wow er megin skýringin á samdrættinum í alþjóðaflugi til og frá landinu. Önnur flugfélög hafi lítið bætt við sig og sum hafi dregið úr ferðum sínum til Keflavíkur. Þannig hafi keppinautar Wow ekki nýtt sér það gat á markaðinum sem flugfélagið hafi skilið eftir sig.

Áfangastöðum sem flogið var til fækkaði einnig sl. febrúar miðað við sama mánuð í fyrra ári úr 62 stöðum niður í 56. Þess er getið að talningin taki einungis til áætlunarflugs en ekki til leiguflugs fyrir ferðaskrifstofur.