Að sögn Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, er ekki útilokað að fjárfesting á síðasta ári sé enn meiri en Seðlabankinn gerir ráð fyrir í efnahagsspá sinni og því má ætla að samdráttur landsframleiðslu á síðasta ári hafi orðið enn minni en gert er ráð fyrir í spánni. Þetta kom fram í máli Þórarins á blaðamannafundi Seðlabankans.

Flest bendir til þess að samdráttur hagkerfisins hafi verið minni á liðnu ári en tölur Hagstofunar sýna og á þriðja fjórðungi ársins lauk jafnframt tveggja ára óslitnu samdráttarskeiði. Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabankans sem út komu í dag samhliða stýrivaxtaákvörðun bankans. Stýrivextir lækka um 0,25 prósentustig. Spáð er 2,8% hagvexti á þessu ári og rúmlega 3% á næsta ári.

Veikur efnahagsbati

„Veikur efnahagsbati“ hafinn er fyrirsögn uppfærðar efnahagsspár bankans sem birt er í Peningamálum. Þar segir m.a.: „Ef stuðst er við mat Seðlabankans á fjármunamyndun síðasta árs fremur en fyrstu áætlanir Hagstofu dróst landsframleiðsla á fyrstu þremur fjórðungum ársins saman um 5,1% frá sama tíma árið áður í stað 5,5% ef stuðst er við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Samkvæmt mati bankans jókst árstíðarleiðrétt landsframleiðsla því um 2,8% milli fjórðunga á þriðja fjórðungi síðasta árs eftir rúmlega tveggja ára samfellt samdráttartímabil. Árstíðarleiðréttur ársfjórðungsvöxtur mælist einnig í tölum Hagstofunnar og virðist óháður því hvernig leiðrétt er fyrir árstíðarsveiflunni. Það eykur traust á áreiðanleika matsins.“

Jafnframt er því bætt við að skv. efnahagsspá bankans hafi áframhaldandi árstíðarleiðréttur hagvöxtur mælst á fjórða ársfjórðungi, nánar tiltekið 2,1%. Samdráttur landsframleiðslu á síðasta ári hafi því verið 2,7% gangi spáin eftir og er það svipað og spáð var við síðustu útgáfu Peningamála í nóvember sl.

Þá gerir spáin ráð fyrir tímabundnu bakslagi í árstíðarleiðréttum hagvexti á fyrri hluta ársins en hann tekur við sér þegar líða tekur á árið.