Samanlögð velta debet- og kreditkorta innanlands dróst saman í apríl um rúmlega 8% miðað við sama tíma í fyrra, reiknað á föstu verðlagi.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að kortavelta Íslendinga erlendis jókst hins vegar um tæp 22% á milli ára í apríl, reiknað á föstu gengi. Hefur þó dregið nokkuð úr hröðum vexti kortaveltu erlendis á síðustu mánuðum og má reikna með því að hratt dragi úr henni á næstunni vegna gengislækkunar krónunnar.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að einkaneysla landsmanna virðist fara minnkandi ef marka má tölur af greiðslukortanotkun landsmanna sem sýna að velta dregst nú saman eftir mikinn vöxt á síðustu misserum. Minnkandi kaupmáttur í kjölfar gengislækkunar er sennilega meginskýring þeirrar þróunar ásamt minnkandi tiltrú á efnahagsástandinu. Neytendur draga úr neyslu sinni eftir verulegan uppgang á síðustu árum. Má reikna með framhaldi á þessari þróun á næstunni og að minni neysla muni eiga stóran þátt í því að draga úr því ójafnvægi sem ríkt hefur í íslensku efnahagslífi undanfarið.