Landsframleiðsla dróst saman um 1,8% í Japan á öðrum ársfjórðungi. Þetta er verri niðurstaða en búist var við en til samanburðar jókst hagvöxtur um 1,5% á fyrsta ársfjórðungi.

Breska útvarpið ( BBC ) segir stöðu hagkerfisins vekja upp spurningar um árangur hagstjórnar Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sem hafði þegar hún var boðuð hlotið rífandi athygli. Samdrátturinn er skrifaður að hluta á söluskatt sem hækkaður var úr 5% í 8% í apríl og mun hækka á ný á næsta ári. Þrýst hefur verið á Abe að fresta því að hækka söluskattinn á næsta ári enda hefur dregið úr eftirspurn í hagkerfinu af þessum sökum.

BBC segir álíka samdrátt ekki hafa sést í efnahagssögu Japans síðan náttúruhamfarir dundu á landinu árið 2011.