Líklegt er að hagkerfi heimsins muni dragast saman á þessu ári í fyrsta sinn frá síðari heimsstyrjöldinni að sögn Alþjóðabankans, World Bank. Alþjóðabankinn telur ennfremur að samdráttur í milliríkjaviðskiptum verði sá mesti í 80 ár.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði í janúar, að sögn Bloomberg, að 0,5% hagvöxtur yrði í heiminum í ár og spá Alþjóðabankans er því svartsýnni. Bankinn gaf þó ekki upp hversu mikill hann teldi að samdrátturinn yrði. Hann sagði þó að hagvöxtur yrði 5% undir því sem hann ætti að geta verið og að þróunarríkin yrðu fyrir mesta samdrættinum. Þau mun að sögn bankans vanta 270-700 milljarða Bandaríkjadala til að greiða fyrir innflutning og þjónusta skuldir.

Austur-Asía verður verst úti vegna minnkandi milliríkjaviðskipta að sögn bankans, sem spáir því að iðnframleiðsla verði 15% minni í ár en í fyrra.