Helmingur hagkerfa heimsins eru annaðhvort í samdráttarskeiði eða standa á barmi samdráttar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs.

Fram kemur á vef breska blaðsins The Daily Telegraph að sérfræðingar banans segja að helstu hagkerfi heims – Bandaríkin, Japan, Bretland og hagkerfi evrusvæðisins séu „í samdrætti eða standa frammi fyrir umtalsverðum samdrætti á komandi mánuðum.”

Sérfræðingarnir vekja líka upp þann möguleika að minnkandi eftirspurn í alþjóðahagkerfinu gæti haft verulega slæm áhrif fyrir kínverska hagkerfið.

Haft er eftir Binit Patel, alþjóðahagfræðingi bankans, að í ljósi mikilvægis kínverska hagkerfisins fyrir vöxt í alþjóðahagkerfinu undanfarin ár gæti alþjóðlegt samdráttarskeið leitt til harðrar lendingar í Kína.

Sem kunnugt er hefur bandaríska hagkerfið ekki enn þá runnið inn í samdráttarskeið. Sérfræðingar Goldman benda hinsvegar á að meiriháttar niðursveifla sé framundan þar sem að stýrivaxtalækkanir og skattaívilnanir stjórnvalda hafi aðeins frestað óumflýjanlegum áhrifum lánsfjárkreppunnar á hagkerfið.

Telegraph hefur eftir Martin Feldstein, hagfræðiprófessor við Harvard-háskóla – og fyrrum yfir yfirmanns Hagfræðirannsóknarstofnunarinnar Bandaríkjanna en sú stofnun ákvarðar formlega hvort að hagkerfið sé í samdrætti -, að hann sé mun svartsýnni en hann hafi verið fyrir ári síðan.

Samdráttur varð í franska og þýska hagkerfinu á öðrum ársfjórðungi sem og í Japan. Fram kemur í frétt The Telegraph að margir óttast að opinberar hagtölur í Bretlandi sýna að hagkerfi landsins sé runnið inn í samdráttarskeið.