Framleiðsla í Kína dróst saman í nóvember og hefur ekki verið minni í þrjátíu og tvo mánuði. Vísitala, sem mælir það hvað kínversk framleiðslu- og þjónustufyrirtæki kaupa mikið í hverjum mánuði, lækkaði úr 51 stigi í október í 48 stig í nóvember. Ef vísitalan er undir 50 stigum bendir það til þess að samdráttur sé í hagkerfinu.

BBC hefur eftir sérfræðingnum Conita Hung að búist hafi verið við því að vísitalan færi undir 50 stig, enda sé Kína ekki ónæmt fyrir skuldakreppunni í Evrópu og almennri óvissu í heiminum.