Verg landsframleiðsla (VLF) dróst saman um 1,7% á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021 samanborið við sama tímabil í fyrra, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá á mánudaginn.

Jafnframt bendir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri og hagfræðingur Viðskiptaráðs, á að landsframleiðsla hafi aðeins dregist saman um 3,5% frá því á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019 þrátt fyrir fall WOW Air, heimsfaraldur og hrun ferðaþjónustunnar. „Held að það sé varla hægt að sleppa mikið betur úr þessum hremmingum,“ segir Konráð á Twitter.

Í skýrslu Íslandsbanka segir að samdráttinn megi að mestu rekja til neikvæðs framlags utanríkisviðskipta vegna mikils samdráttar í ferðaþjónustu, sem hefur að mestu leiti legið í dvala frá því heimsfaraldurinn hófst. Einungis 475 þúsund ferðamenn komu hingað til lands í fyrra og um 330 þúsund þeirra komu á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar komu um tvær milljónir ferðamanna hingað til lands árið áður.

Í hagsjá Landsbankan s er bent á að áhrifa heimsfaraldursins á efnahagslífið fór ekki verulega að gæta fyrr en á öðrum ársfjórðungi síðasta árs þegar að samdráttur var 10,1%. Þá hefur Landsbankinn spáð miklum viðsnúningi í ár og að hagvöxtur ársins verði 4,9%.