Heildarsumma staðgreiðsluskyldra launa á Íslandi dróst saman á fyrri hluta árs 2020. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

Samdráttur launasummu frá janúar til og með maí 2020 var 2,8% miðað við sama tímabil árið 2019. Á milli febrúar og mars 2020 var samdráttur um 1,8% og um 2,7% á milli mars og apríl. Hins vegar jókst heildarsumma launa um 7,7% á milli apríl og maí 2020.

Aukning í heildarsummu launa á milli apríl og maí er í samræmi við árstíðarsveiflu síðustu ára en á því tímabili eykst launasumman ár hvert meðal annars vegna greiðslu orlofsuppbótar sem kveðið er á um í kjarasamningum.