Heildarafli íslenskra skipa var rúm 178 þúsund tonn á fyrsta ársfjórðungi 2020 sem er 25% minni afli en á sama tímabili árið 2019. Aflasamdráttur varð í nær öllum fisktegundum.

Hagstofan greinir frá.

Aflaverðmæti fyrstu sölu var tæpir 34,2 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2020 sem er samdráttur um 5,6% miðað við sama tímabil 2019. Verðmæti botnfisktegunda nam um 31,5 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi og stendur í stað á milli ára þrátt fyrir 9% samdrátt í aflamagni.

Aftur loðnubrestur

Munaði miklu um afla í ýsu í botnfiskveiðum sem var tæplega 6.000 tonnum minni en í fyrra en rúmlega 3.000 tonnum minni í þorski. Loðnubrestur varð eins og í fyrra en miklu munar um afla í kolmunna. Veiddust tæplega 51.000 tonn af kolmunna á tímabilinu nú en 96.000 tonn rúm í fyrra. Það er helst karfaveiðin sem helst óbreytt, rétt rúmlega 12.000 tonn í fyrra og í ár.

Um bráðabirgðatölur er að ræða. Þær byggja á gögnum um verðmæti fyrstu sölu landaðs afla sem Fiskistofa safnar saman.